*

laugardagur, 16. janúar 2021
Frjáls verslun 24. desember 2020 18:02

Gríðarleg þróunarvinna framundan

Nýjasta þróunarverkefni ORF Líftækni, MESOkine, byggir á framleiðslu dýrafrumuvaka sem nýtast við framleiðslu stofnfrumuræktaðs kjöts.

Andrea Sigurðardóttir
Liv Bergþórsdóttir, forstjóri ORF Líftækni, í gróðurhúsi fyrirtækisins í Grindavík.
Gunnar Svanberg

Liv Bergþórsdóttir, forstjóri ORF Líftækni, ræðir um nýja vöru sem fyrirtækið er að þróa, MESOkine, í viðtali í tímaritinu Frjálsri verslun sem kom út á dögunum.

ORF Líftækni hefur fest sig í sessi sem leiðandi fyrirtæki í plöntulíftækni. Fyrirtækið var stofnað árið 2001 og byggir hugvit og nýsköpun fyrirtækisins á þróun þess á hagkvæmri leið til að framleiða sérvirk prótein í byggfræjum með erfðatækni.

„Framleiðslukerfi ORF, sem kallast Orfeus, er einstakt í sinni röð og tók fyrirtækið mörg ár að þróa. Kerfið gerir fyrirtækinu kleift að framleiða þessi viðkvæmu prótein, svokallaða vaxtaþætti eða frumuvaka, með mun öruggari og hagkvæmari hætti en hefðbundin framleiðslukerfi," segir Liv og bætir við að frumuvakarnir séu framleiddir í byggi sem ræktað er í gróðurhúsi fyrirtækisins í Grindavík.

Fyrsta varan sem ORF Líftækni setti á markað var ISOkine, árið 2007, og svo komu BIOEFFECT húðvörurnar á markað árið 2010. „ISOkine eru mannafrumuvakar sem framleiddir eru í miklum gæðum en í litlu magni og seldir til rannsóknarstofa. ORF framleiðir einnig sérstaka húðfrumuvaka sem nýttir eru í BIOEFFECT húðvörulínuna, sem er lykilvara fyrirtækisins í dag."

Liv segir að innan ORF Líftækni séu reknar tvær ólíkar einingar. Annars vegar framleiðsla, sala og markaðssetning á frumuvökum og hins vegar sala og markaðssetning á BIOEFFECT húðvörunum. Um 90% af tekjum ORF Líftækni eru frá BIOEFFECT en fyrirtækið vinnur nú að því að þróa nýja vöru, MESOkine, sem byggir á því að nýta framleiðslukerfi fyrirtækisins til að framleiða dýrafrumuvaka, til viðbótar við manna- og húðfrumuvaka, en dýrafrumuvakarnir munu nýtast við stofnfrumuræktun á kjöti.

„MESOkine er nýjasta þróunarverkefni ORF en það fór formlega af stað í október. Verkefnið byggir á að framleiða dýrafrumuvaka, markaðssetja þá og selja til fyrirtækja sem eru að framleiða nýja tegund af kjöti með stofnfrumurækt," segir Liv.

ORF Líftækni hlaut Horizon styrk

ORF Líftækni hlaut fyrr á árinu 2,5 milljóna evra styrk til tveggja ára vegna þróunar fyrirtækisins á MESOkine, en það samsvarar um 400 milljónum króna. Styrkurinn var veittur af Horizon 2020, rannsóknar- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins, og hlaut fyrirtækið hæstu styrkfjárhæð sem boðið er upp á.

Yfirleitt sækja yfir tvö þúsund fyrirtæki um styrk en aðeins um 2,5 til 3 prósent umsækjenda hljóta styrkinn og eru mörg fyrirtækjanna að sækja um styrkinn í annað eða þriðja skipti.

„Við sóttum um þennan styrk í fyrsta skipti núna og erum alveg gríðarlega stolt af því að hafa hlotið hann. Styrkurinn kemur til með að dekka sjötíu prósent af kostnaði við verkefnið í tvö ár og byggir á því að okkar framlag er hin þrjátíu prósentin. Við höfum einnig hlotið styrki frá Tækniþróunarsjóði upp á 50 milljónir króna, þannig að allt í allt er heildarkostnaður verkefnisins á milli 600 og 700 milljónir króna yfir tvö ár."

Við val á nýsköpunarverkefnum sem hljóta styrkinn er horft til þess hvort þau vinni að einu eða fleiri af átta sjálfbærnimarkmiðum The European Green Deal, en þau snúa meðal annars að loftslagsmálum og matvælaframleiðslu, markmið sem kjötrækt mun sannarlega styðja við.

Framundan er gríðarleg þróunarvinna hjá ORF Líftækni vegna MESOkine. „Við erum mikið að funda með fyrirtækjum sem eru í kjötrækt, til að afla upplýsinga sem hjálpa okkur að þróa vöruna svo hún muni henta sem best í þeirra framleiðslu. Við stefnum að því að setja MESOkine á markað árið 2023."

Nánar er fjallað um málið tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út nýlega. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér eða gerast áskrifandi hér.