Fjármálaráðherrar evruríkjanna komust að samkomulagi á fundi sínum í dag að veita grískum stjórnvöldum næsta lánaskammt, átta milljarða evra, jafnvirði næstum 1.300 milljarða íslenskra króna.

Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að grísk stjórnvöld samþykktu aðgerðir sem fela í sér verulega niðurskurð á ríkisútgjöldum í gær.

Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS.
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þarf að samþykkja lánveitinguna og gæti peningurinn skilað sér til Grikkja innan mánaðar.

Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem sat fundinn í Brussel með ráðherrunum lét hafa eftir sér í dag að sjóðurinn muni gera allt hvað hann geti til að aðstoða evruríkin.

Með lánveitingunni er komið í veg fyrir greiðslufall gríska ríkisins í bili. Róðurinn verður enn þungur enda skuldir hins opinbera enn alltof háar og því nauðsynlegt að afskrifa hluta skulda landsins eigi að takast að forða landinu frá þroti, að sögn AP-fréttastofunnar.

Fréttastofan hefur eftir nokkrum ráðherrum sem sátu fundinn í dag að þessi niðurstaða sé aðeins hluti af stærra og flóknara púsli, enn eigi eftir að ná samstöðu um það hvort og þá hvernig björgunarsjóður evruríkjanna verði stækkaður svo hindra megi að lönd á borð við Ítalíu og Spán lendi í greiðsluvanda með tilheyrandi vandræðum fyrir banka og fjármálafyrirtæki í báðum löndum. Leiðtogar evruríkjanna ræða um björgunarsjóðinn á fundi sínum í Brussel á föstudag og hefur verið þrýst á að þeir komi sér saman um aðgerðaáætlun. Fjármálaráðherrarnir munu hittast aftur í næstu viku.

AP hefur eftir ónafngreindum heimildamönnum innan þýsku stjórnsýslunnar að þýska stjórnin eigi í viðræðum við lánardrottna Grikklands sem geti leitt til þess að skuldir landsins verði færðar mikið niður, jafnvel svo mikið að skuldir verði 120% af landsframleiðslu árið 2020. Slíkt hefur lengi verið talið nauðsynleg viðbót við opinbera fjárhagsaðstoð.

Óeirðir
Óeirðir