Töluverður fjöldi Grikkja virðist nú hugsa sér nú til hreyfings eftir margra mánaða efnahagslægð í landinu sem enn virðist ekki sjá fyrir endann á. Eins og flestum er kunnugt samþykkti Evrópusambandið afgreiðslu neyðarlánapakka að andvirði um 172 milljarða dollara til Grikklands aðfaranótt þriðjudags. Skilyrði fyrir þessum lánum voru ýmsar óvinsælar aðhaldsaðgerðir sem meðal annars hafa falið í sér skattahækkanir og launalækkanir.

Í netútgáfu kanadíska dagblaðsins The Vancouver Sun er haft eftir fulltrúa kanadísk-grísks samfélags í Kanada að mikil fjölgun hafi orðið á fyrirspurnum um atvinnu í Kanada og erfitt sé að hafa undan. Tugir Grikkja flytjist til landsins vikulega og fjöldinn hafi vaxið gífurlega.

Töluvert hefur verið fjallað um svipaða þróun á Íslandi í kjölfar kreppunnar en samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar fjölgaði íslenskum ríkisborgurum sem fluttu af landi brott úr 3.294 í 4.851 á milli áranna 2008 og 2009. Íslendingar virðast þó heldur sækja til Noregs í þetta skiptið þó Kanada hafi vissulega verið fyrirheitna landið á 19. öldinni.