Gríska þjóðin gengur að kjörborðinu í dag en niðurstöður kosninganna gætu ákvarðað framtíð Grikkja innan evrusvæðisins. Víglínur kosninganna eru dregnar á milli þeirra flokka sem vilja taka við björgunarlánum frá Evrópusambandinu og þeirra sem eru á móti lánasamningunum. Helst er rætt um að kosningarnar snúist um fylgi tveggja flokka, Nýja lýðræðisflokksins og Syriza. Sex vikur eru síðan kosið var síðast en þá reyndist ekki mögulegt að koma saman ríkisstjórn eftir kosningarnar.

Nýji lýðræðisflokkurinn fékk 19% fylgi í kosningum í maí, vill taka við lánunum og er stærsti flokkurinn sem er samþykkur lánunum. Syriza flokkurinn fékk 17% fylgi í maí, vill hætta við lántökurnar og ríkisvæða banka. Enginn flokkur hefur það sem stefnu fyrir kosningarnar að taka upp Drökmuna á ný fyrir utan Kommúnistaflokkinn sem fékk um 9% fylgi í síðustu kosningum. Það virðist þó sífellt líklegra að Grikkir gangi úr evrusamstarfinu ef þeir ákveða að hafna björgunarpakkanum.