Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, fundaði með alþjóðlegum lánveitendum landsins fram á nótt í þeim tilgangi að ná samningum um komandi afborganir Grikkja af lánunum. Engin niðurstaða fékkst hins vegar á fundinum og málið því enn óleyst.

Grikkland þarf að standa skil á 1,6 milljarða evra afborgun af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir mánaðamótin og þarf því að ná samningum fyrir þann tíma. Fundahöld munu halda áfram í dag og er vonast til þess að samningar náist áður en leiðtogar evruríkjanna hittast aftur á fundi í vikunni.

Grikkir lögðu nýlega fram nýjar umbótatillögur sem miða að hækkun skatta í landinu, m.a. á fyrirtæki og hina ríku, auk breytinga á lífeyriskerfi landsins. Alþjóðlegum lánardrottnum þykir hins vegar tillögurnar ganga of skammt og vilja sjá frekari aðgerðir af hálfu Grikklands, sem hingað til hefur ekki viljað gefa eftir.