Stjórnvöld á Grikklandi segjast hafa náð samkomulagi við lánardrottna landsins um næsta skammt af björgunarlánum sem eiga að forða landinu frá gjaldþroti. Lánardrottnar Grikkja, Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ásamt fleirum, setja miklar kvaðir við lánveitingunum og hefur verið karpað um þær síðustu vikurnar.

Simon O'Connor, talsmaður Olli Rehn, efnahags- og peningamálastjóri Evrópusambandsins, vísaði hins vegar öllum málalokum á bug.

Á meðal þess sem grísk stjórnvöld segja að felist í samkomulaginu er róttæk breyting á vinnulöggjöf á Grikklandi og frekari niðurskurður á ríkisútgjöldum sem eiga að spara 13,5 milljarða evra, jafnvirði 2.200 milljarða íslenskra króna.

Bandaríska dagblaðið The New York Times segir grískan almenning taka illa í samkomulagið enda hafi hann fengið að finna harkalega fyrir grísku kreppunni síðustu misserin. Þetta er jafnframt þriðja skiptið sem ríkisstjórn Grikklands herðir sultarólina frekar til að fá lán úr alþjóðlegum sjóðum.