Gríska stjórnin segist munu greiða 750 milljóna evra afborgun á láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á morgun, að því er segir í frétt BBC. Stjórnin er enn að vinna að því að fá samþykki lánadrottna á hagræðingaráætlun sinni svo hægt sé að afhenda Grikkjum 7,2 milljarða evra lán, sem gríska stjórnin þarf nauðsynlega á að halda.

Í frétt BBC segir að þrátt fyrir að grísk stjórnvöld hafi til júníloka til að ná nýju samkomulagi við lánadrottna, sem einkum eru ESB, AGS og evrópski seðlabankinn, sé ríkissjóður Grikklands svo gott sem tómur. Ríkisstjórnin hafi t.a.m. látið sveitarstjórnir og aðra opinbera aðila flytja innstæður sínar í gríska seðlabankann svo hægt væri að nota féð til að borga af lánum ríkisins.

Enn hefur ekkert miðað í samningaviðræðum Grikkja og lánadrottna, enda hefur ríkisstjórn Syriza ekki viljað brjóta loforð sín um að snúa við hagræðingaraðgerðum fyrri ríkisstjórnar.