Efnahagsvandi Grikklands virðist algjörlega hafa farið framhjá hernaðaryfirvöldum þarlendum eða varnarmálaráðherra landsins. Ríkisstjórn Papandreou berst nú við að skera ríkisútgjöld niður og ná fjárlagahalla niður í 7,6% af landsframleiðslu á næsta fjárlagaári og koma í veg fyrir þjóðargjaldþrot en samtímis hefur her landsins veifað greiðslukortinu og pantað 400 notaða skriðdreka frá Bandaríkjunum. Um er að ræða skriðdreka af tegundinni M1A1 Abrams.

Frá þessu er greint á viðskiptavef sænska dagblaðsins SvD og er vitnað í Hellenic Defence & Technology. Ekki kemur fram hversu mikla fjárfestingu um er að ræða né heldur hvert gangverðið á notuðum skriðdrekum er nú til dags en ljóst er að hér er um töluverða fjárfestinu að ræða. Þá munu hernaðaryfirvöld hafa pantað tugmilljóna dala lagfæringar á skriðdrekunum.

Ennfremur hafa hernaðaryfirvöld óskað eftir tilboði vegna fyrirhugaðra kaup á 20 neðansjávarfarartækjum af gerðinni AAV7A1. Til stendur að kaupa samtals á bilinu 75-100 slík tæki.