Viðræður stóðu yfir í nótt um skuldaúrlausn Grikkja án þess að lending hafi náðst í málinu. Samsteypustjórn Lucas Papademos forsætisráðherra er sögð hafa náð saman um flesta þætti. Það sem helst stóð í mönnum var krafa lánardrottna gríska ríkisins um niðurskurður á lífeyrisgreiðslum hins opinbera. Með niðurskurðinum var vonast til að lækka hallann á grískum fjárlögum um 600 milljónir evra, jafnvirði um 100 milljarða íslenskra króna.

Grískir ráðamenn munu hafa verið tilbúnir til að samþykkja helmingi lægri niðurskurð og fá þeir hálfan mánuð til að finna hugsanlega fitu í efnahagsreikningi ríkisins sem skera má af og fylla upp í það sem upp á vantar.

Bandaríska dagblaðið Washington Post hermir að samkvæmt samkomulagi við lánardrottna Grikkja liggi fyrir drög að samkomulagi sem feli m.a. í sér að lágmarkslaun lækki almennt um 22%, æviráðningar muni heyra sögunni til og að 150 þúsund ríkisstarfsmönnum verði sagt upp á næstu þremur árum.

Þreyttur fjármálaráðherra

Blaðið segir að séð hafi á Evangelos Venezelos, fjármálaráðherra Grikkja, þegar hann kom af fimm klukkustunda löngum fundi með sendifulltrúum Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eldsnemma í morgun og sagði blaðamönnum að hann væri nú á leið til Brussel. Hann ætli hann að reyna til þrautar að ná samningum við fjármálaráðherrum evruríkjanna síðar í dag í þeirri von að tryggja stjórnvöldum lánalínu upp á 130 milljarða evra svo það geti staðið við skuldbindingar sínar.