Hlutabréf hækkuðu í Bandaríkjunum í dag vegna vangaveltna um að bandaríski seðlabankinn og önnur yfirvöld þar í landi muni koma AIG tryggingarisanum til bjargar.

S&P 500 vísitalan lækkaði um 2% í viðskiptum snemma dags, en vísitalan hefur ekki fallið hraðar í 7 ár en hún hefur gert undanfarna daga. Í lok dags hækkaði vísitalan hins vegar vegna frétta um að yfirvöld íhugi að koma AIG til bjargar, en félagið riðar á barmi gjaldþrots eins og stendur. Bréf AIG lækkuðu um 21% í dag, þ.e. um 1,01 dal á hlut, niður í 3,75 dali á hlut, eftir að hafa fyrr í dag lækkað um 3,51 dal.

Nasdaq vísitalan hækkaði í dag um 1,3%. Dow Jones hækkaði einnig um 1,3% og Standard & Poor´s hækkaði um 1,8%.

Olíuverð heldur áfram að lækka og féll olíutunnan í verði um 2,9 dali í dag, þ.e. 3%, og kostar nú 92,9 dali.