Ávinningur Íslands af því að geta fellt gengi krónunnar í kjölfar bankahrunsins var minni en oft er haldið fram í umræðunni, að sögn Daniel Gros, framkvæmdastjóra hugveitunnar Centre for European Policy Studies (CEPS) og fyrrverandi bankaráðsmanni í Seðlabanka Íslands.

Gros skrifar grein um það hvaða lærdóma megi draga af viðbrögðum stjórnvalda í Lettlandi, Eistlandi og Íslandi, þegar kreppan skall á. Þar segir hann að vegna þess að útflutningsvörur Íslands eru aðallega náttúruafurðir eins og fiskur og ál hafi gengisfelling lítil áhrif á útflutningsgetu. Gengisfellingin hafi vissulega verið sveiflujafnandi á efnahagslífið heima við. Aukin landsframleiðsla á Íslandi sé hins vegar ekki til komin hennar vegna heldur vegna þess að hlýnun jarðar hafi rekið fiskistofna inn í íslenska lögsögu.

Íslenska ríkið hafi aftur á móti verið rekið með miklum halla í langan tíma og skuldastaða hins opinbera sé nú nærri 100% af vergri landsframleiðslu. Hallarekstur sem þessi geri hins vegar lítið til að örva hagvöxt í litlu opnu hagkerfi þar sem stærstur hluti aukaútgjalda fer í innflutning. Það ætti því ekki að koma á óvart að viðskiptahalli er enn mikill á Íslandi og eykur hann þar með við skuldasöfnunina.

Hann segir rétt að miðað við hagvöxt hafi hrunið verið mun harkalegra í Lettlandi en á Íslandi, en hafa beri í huga að viðskiptahalli Lettlands fyrir hrun hafi verið um 25% af landsframleiðslu og því hafi gangurinn í efnahagslífinu ekki verið sjálfbær til lengri tíma. Nú sé lettneska hagkerfið um 10% smærra en það var fyrir hrun, en sé að vaxa. Skuldastaða hins opinbera sé hins vegar mun betri en hér á landi, eða um 40% af vergri landsframleiðslu. Með því að halda útgjöldum hins opinbera í skefjum sé staða ríkisfjármála í Lettlandi mun betri en á Íslandi. Bæði löndin hafi verið með tiltölulega litlar opinberar skuldir fyrir hrun, en nú séu skuldir íslenska ríkisins líklegar til að hefta hagvöxt til framtíðar.