Á fundi stjórnar FL Group í morgun var ákveðið að gera grundvallarbreytingar á skipulagi FL Group, þannig að fjárfestingarstarfsemi mun verða aðalverkefni þess. Hannes Smárason hefur verið ráðinn forstjóri félagsins. Fjárfestingar félagsins munu falla undir þrjú svið, eitt svið, sem sérhæfir sig í rekstrar-, yfirtöku-, og umbreytingarverkefnum (Private Equity) sem Jón Sigurðsson stýrir, annað sem mun annast eignastýringu og fjárfestingar (Asset Management and Portfolio Investments) sem Albert Jónsson stýrir og hið þriðja sem annast kaup, sölu og leigu á alþjóðlegum flugvélamarkaði undir stjórn Halldórs Vilhjálmssonar framkvæmdastjóra Icelease.

Í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar kemur fram að samhliða framangreindum breytingum hefur verið ákveðið að skipta flug- og ferðatengdum rekstri FL Group í tvö aðskilin dótturfélög. Undir annað þeirra, Icelandair Group, heyrir alþjóðlegur flugrekstur, þ.e. Icelandair, Icelandair Cargo, Loftleiðir-Icelandic, Bláfugl, Flugflutningar, Icelandair Technical Services og Icelandair Ground Services. Velta þessara félaga er samtals um 35 milljarðar króna og starfsmannafjöldi um 2.000. Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, hefur verið ráðinn forstjóri Icelandair Group. ?Þetta verður gríðarlega skemmtilegt og spennandi verkefni og ég hlakka til að takast á við það ásamt frábæru starfsfólki fyrirtækisins. Þetta eru sterk og vaxandi fyrirtæki", segir Jón Karl Ólafsson í tilkynningu félagsins.

Þau fyrirtæki sem annast ferðaþjónustu hér á Íslandi, þ.e. Flugfélag Íslands, Ferðaskrifstofa Íslands, Flugleiðahótel, Íslandsferðir, Kynnisferðir og Bílaleiga Flugleiða, munu heyra undir FL Travel Group og hefur Þorsteinn Örn Guðmundsson framkvæmdastjóri hjá FL Group verið ráðinn forstjóri þess. Velta þessara félaga er samtals um 11 milljarðar króna og starfsmannafjöldi um 500. ?Hér er verið að steypa saman í eitt félag sterkum og sjálfstæðum fyrirtækjum sem eiga það sameiginlegt að annast ferðaþjónustu á Íslandi. Hugmyndin er ekki að sameina þau rekstrarlega, heldur að styrkja þau og efla hvert í sínu lagi og ég hlakka til þess að vinna með stjórnendum og starfsfólki að því verkefni", segir Þorsteinn Örn Guðmundsson.

?Þessar breytingar eru gerðar til að framkalla skarpari áherslu á reksturinn í þessum félögum. Til verða öflug félög hvort á sínu sviði með skýr markmið um vöxt og arðsemi undir stjórn frábærra stjórnenda. Enn frekar er skilið á milli rekstrarfélaga og fjárfestingarstarfseminnar en verið hefur", segir Hannes Smárason, forstjóri FL Group.