Grunur leikur á að fjárfestingar Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga og því hefur fjármálaráðherra skipað sjóðnum umsjónaraðila að tillögu Fjármálaeftirlitsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Þar segir að sjóðurinn hafi ekki sinnt ítrekuðum kröfum FME um úrbætur.

Lögin sem vísað er til í tilkynningunni eru lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Ekki er tilgreint hvaða ákvæði eigi mögulega að hafa verið brotin. Ekki fengust heldur upplýsingar um það hjá FME.

Framkvæmdastjóra sjóðsins var ekki kunnugt um málið þegar Viðskiptablaðið leitaði skýringa rétt í þessu.

Samkvæmt tilkynningunni verður Elín Jónsdóttir lögfræðingur umsjónaraðili sjóðsins frá og með deginum í dag. Tekur hún við réttindum og skyldum stjórnar og framkvæmdastjóra fram til 19. ágúst nk.

Stjórnarformaður sjóðsins er Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi.