Danske Bank er ekki raunverulegur eigandi þeirra eignarhluta sem hann er skráður fyrir í íslenskum félögum en eins og fram hefur komið birtist nafn Danske Banke á lista yfir 20 stærstu hluthafa í fimm íslenskum félögum sem skráð eru í kauphöllinni; Existu, Spron, Glitni, Bakkavör og FL Group.

Jonas Sunn Torp, talsmaður Danske Bank, segir bankann vera á hluthafalistunum fyrir hönd viðskiptavina bankans. „Við erum meðal stærstu verðbréfamiðlara á Norðurlöndunum og starfrækjum útibú um alla Norður-Evrópu og nokkrir viðskiptavinir okkar eru með stöður í íslenskum félögum, bæði fagfjárfestar og fjársterkir einstaklingar. Það væri í raun ólíklegt ef einhver af viðskiptavinum okkar ætti ekki hluti í íslenskum félögum og það má líka ganga að því sem gefnu að við séum skráðir fyrir hlutum í öðrum íslenskum félögum þótt við höfum ekki komist á listann yfir 20 stærstu. Ég er viss um að ef menn skoðuðu lista yfir stærstu eigendur í norskum, sænskum eða finnskum kauphallarfélögum þá myndu þeir líka rekast á nafn Danske Bank þar,“ segir Jonas.

Grunsemdir um skortsölu

Engin leið er að segja nákvæmlega til um hvaða viðskipti standa á bak við það að nafni Danske Bank skýtur upp kollinum á hluthafalista íslensku fyrirtækjanna. Margir telja þó líklegt að Danske Bank sé í reynd að skortselja hlutbréf í íslenskum félögum og veðji þá á að gengi þeirra muni lækka innan tiltekins tíma, en skortsala kallast það þegar fjárfestir fær lánuð verðbréf til að selja þau og kaupa aftur í framtíðinni, í þeirri von að þau hafi lækkað í verði.

Spurður um hvort Danske Bank sé mögulega að skortselja bréf í íslenskum félögum segist Jonas Sunn Torp ekki geta tjáð sig um það. Bankinn taki eðlilega þátt í slíkum viðskiptum almennt eins og aðrir.

„Ég get aftur á móti ekki tjáð mig um það hvort slíkt eigi við í þessu tilviki. Við eigum í miklum viðskiptum úti um allan heim, líka með íslensk verðbréf. Þannig að það segir sig sjálf að við bæði kaupum og seljum bréf."