Landhelgisgæslan þurfti í gærkvöldi að kalla út þyrlusveit á bakvakt úr röðum manna sem voru í frí. Er þetta þá í annað sinn í þessari viku sem það gerist.

Sem kunnugt er hefur Landhelgisgæslan þurft að skera niður í rekstri sínum vegna fjárhagsörðugleika en þeir koma helst til vegna lækkandi gengis krónunnar. Þannig hefur þremur þyrluflugmönnum Gæslunnar verið sagt upp störfum en einn þeirra hætti störfum um nýliðin mánaðarmót og hinir tveir munu hætta störfum í lok sumars.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF LÍF var í gærkvöldi eftir að grænlenski togarinn Polar Nanoq hafði samband við Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og óskaði eftir aðstoð þyrlunnar en togarinn staðsettur um 188 sjómílur SV af Reykjanesi á siglingu til Grænlands eftir að hafa landað á Íslandi.

Í þessari viku er einungis ein þyrluáhöfn á vakt en frá því að bandaríski herinn fór af landi brott árið 2006 hafa þær iðulega verið tvær. Flugstjórar Gæslunnar hafa þegar lýst því yfir að þeir fari ekki með áhöfn sína út fyrir 20 sjómílur án þess að til staðar sé bakvakt, sem geti farið í loftið á eftir fyrri áhöfninni ef á þarf að halda. Til að fylla upp í þessa bakvakt voru áhafnarmeðlimir í vaktafríum kallaðir inn.

Svipað atviki kom upp fyrr í vikunni þegar sama þyrla, TF LÍF þurfti að sækja veika konu af portúgölsku farþegaskipi um 85 sjómílur SA af Vestmannaeyjum. Þá þurfti jafnframt að kalla út þyrluáhöfn úr fríi auk þess sem flugmaðurinn, sem þegar hafði látið af störfum vegna uppsagnar, mætti til vinnu.

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar staðfestir í samtali við Viðskiptablaðið að í þessari viku hafi Gæslan þurft að ganga frá málum með fyrrgreindum hætti. Hann segir að stofnuninni hafi verið gert að spara og hjá því verði ekki komist.

„Þetta gengur þó upp með vilja og dugnaði starfsmanna,“ segir Georg en ítrekar þó að öllu jafna séu tvær þyrluáhafnir á vakt og því um einstök tilvik að ræða.

Georg segir að stofnunin þurfi að spara fjármagn líkt og aðrir en muni engu að síður leggja allt sitt af mörkum til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru um öryggi á hafi úti. Hann ítrekar dugnað starfsmanna Gæslunnar sem hafa komið til vinnu úr vaktafríum.

Sjá nánar um málið í tengdum fréttum hér að neðan.