Fjármálafyrirtæki landsins fá nú mörg hver harðan skell. Seðlabanki Íslands hefur krafist viðbótarveða vegna skuldabréfa gömlu viðskiptabankanna sem mörg fyrirtækjanna hafa lagt inn í bankann í endurhverfum viðskiptum.

Ekki er fyrirséð hvort fyrirtækin hafa öll bolmagn til að verða við þessari kröfu og gætu sum hver farið á hausinn .

Krafa Seðlabanka um frekari tryggingar frá þeim fjármálafyrirtækjum sem lagt hafa inn í bankann óvarin verðbréf, útgefin af Glitni, Kaupþingi og Landsbanka, virðist ætla að koma mjög illa við þau fyrirtæki sem um ræðir.

Seðlabankinn setti fram þessa kröfu eftir að hafa endurmetið bréfin til mikillar lækkunar, en fyrirtækin lögðu þau fram sem tryggingu í endurhverfum viðskiptum.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að virði bréfanna hafi við endurmatið lækkað úr 300 milljörðum í 150 milljarða og má ætla að slíkar tölur fari nærri raunverulegri upphæð – þótt slíkt fáist ekki staðfest hjá Seðlabankanum. Samkvæmt þeim þurfa fyrirtækin að leggja fram 150 milljarða í veðum eða peningum þegar rennur fresturinn út þann 29. þ.m.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .