Norska blaðið Finansavisen greindi frá því í morgun að sænska lággjaldaflugfélagið FlyMe eigi yfirtökuviðræðum við danska keppinautinn Sterling. Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að um öfuga yfirtöku sé að ræða (e. reverse takeover).

Eignarhaldsfélagið Fons er stærsti hluthafinn í FlyMe, með rúmlega 20% hlut, og félagið seldi FL Group sameinað Sterling og Mærsk Air í fyrra fyrir 15 milljarða króna. Ekki náiðist í Pálma Haraldsson, sem stýrir Fons, en hann neitaði að tjá sig í samtali við Morgunblaðið í morgun.

Björn Olegaard, stjórnarformaður FlyMe, segir fyrirtækið hafa áhuga á að taka þátt í samþjöppun á evrópska flugmarkaðnum og hefur fyrirtækið útbúið lista með nöfnum á 4-6 félögum sem mögulegt væri að taka yfir.

Félagið hefur náð samningum við Gliti um ráðgjöf, eins og greint var frá á vef Viðskiptablaðsins í gær, og segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins að FlyMe hafi einnig átt í viðræðum við bankann um að fjármagna hugsanlegar yfirökur. Talsmaður Glitnis neitaði því að um fjármögnunarsamning sé að ræða.

Heimildamenn Viðskiptablaðsins segja að þeim finnist líklegra að um sameiningu sé að ræða, frekar en beina yfirtöku FlyMe, og benda á að sænska félagið hafi ekki burði til slikrar yfiröku. Viðmælendur blaðsins segja því að um öfuga yfirtöku sé frekar að ræða en telja ekki ólíklegt að FlyMe hafi hafið viðræðurnar.

FlyMe hefur samþykkt að kaupa Lithuanian Airlines á næsta ári, en áreiðanleikakönnun hefur hins vegar ekki verið lokið.