Guðjón Ingi Ágústsson hefur tekið við stöðu tæknirekstrarstjóra hjá Póstinum, en hann starfaði áður hjá Origo á sviði öryggislausna og ráðgjafar. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Guðjón tók við starfinu í marsmánuði síðastliðnum, eftir rúmlega 5 ára starf hjá Origo, en hafði aðspurður ekki skýringar á því hvers vegna ekki hafi verið greint frá ráðningunni fyrr.

Guðjón er með M.Sc. gráðu í upplýsingatækni og viðskiptum frá Kaupmannahafnarháskóla, og bachelorsgráðu í arkitektúr og byggingafræðum (e. Architectural Technology and Construction Management).

„Við höfum lagt höfuðáherslu á að fá rétta fólkið til liðs við okkur, þess vegna erum við mjög ánægð með að hafa fengið Guðjón til starfa. Hann er með gríðarlega reynslu og er mjög drífandi í því sem hann tekur sér fyrir hendur,“ er haft eftir Georgi Haraldssyni forstöðumanni stafrænna lausna og upplýsingatækni í tilkynningunni.

„Ég legg mikla áherslu á að hugsa allt út frá viðskiptavinum og veita þeim góða þjónustu, það er svo sannarlega í takt við stefnu fyrirtækisins og það verður gaman að taka þátt í þessu umbreytingarferli sem fyrirtækið er að ganga í gegnum,“ segir Guðjón.