Guðmunda Ósk Kristjánsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri fjármálasviðs 365 og tekur við starfinu af Sigrúnu L. Sigurjónsdóttur sem sagði starfi sínu lausu sökum veikinda.

Sigrún mun starfa áfram hjá 365. Guðmunda Ósk starfaði áður sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði Landsbankans. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Það er mjög spennandi að ganga til liðs við 365 á þessum tímapunkti. Ég þekki vel til félagsins í gegnum fyrri störf og ánægjulegt er að sjá hvað félagið hefur eflst samhliða innreið sinni inn á fjarskiptamarkaðinn sem hófst á árinu 2013 svo og með sameiningunni við Tal á síðasta ári. Ég tek nýjum áskorunum fagnandi og hlakka til að starfa með öflugum hópi starfsmanna 365,“ segir Guðmunda.

Guðmunda Ósk lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands, útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1999 og lauk löggildingu í verðbréfaviðskiptum árið 2001.

Guðmunda Ósk starfaði hjá Landsbankanum frá árinu 2003. Hún var viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði bankans frá árinu 2007. Þar áður starfaði Guðmunda Ósk í greiningardeild Landsbankans og Búnaðarbankans, bæði sem hlutabréfa- og skuldabréfagreinandi.