Guðmundur Arnar Guðmundsson hefur hafið störf sem framkvæmdastjóri markaðssviðs Wow air. Meginverkefni hans hjá Wow verður að byggja upp markaðsstarf félagsins bæði heima og erlendis. Wow Air hefur flug frá Íslandi til 12 áfangastaða í Evrópu 1. júní næstkomandi.

Guðmundur Arnar Guðmundsson, markaðsstjóri hjá WOW air.
Guðmundur Arnar Guðmundsson, markaðsstjóri hjá WOW air.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Guðmundur starfaði að loknu námi við markaðsmál hjá 365 miðlum en frá árinu 2006 hefur hann starfað hjá flugfélaginu Icelandair, fyrst sem markaðsstjóri félagsins á Bretlandseyjum.

Árið 2008 kom Guðmundur til starfa í markaðsdeild Icelandair á Íslandi og fór fyrir markaðsstarfi þess hér á landi, ásamt því að annast markaðsrannsóknir fyrirtækisins og aðstoða við stefnumótun og uppbyggingu á vörumerki Icelandair.

Guðmundur er hagfræðingur frá Acadia University í Kanada og er jafnframt með MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Hann hefur ritað fjölda greina um viðskipti og markaðsmál í tímarit og blöð á Íslandi og er núverandi formaður Ímark, félags markaðsfólks á Íslandi. Hann hefur einnig gefið út bók sem fjallar um markaðssetningu á netinu.