*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 3. júní 2015 14:38

Guðmundur tók ekki ákvörðun um lánveitinguna

Fyrrum forstjóri SPRON var ekki í aðstöðu til þess að veita Exista lán frá sjóðnum, segir lögmaður hans.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

„Ákærði tók ekki ákvörðun um þessa lán­veit­ingu og hafði ekki heim­ild til þess. Hann get­ur því hvorki borið sjálf­stæða ábyrgð á lán­inu né sam­eig­in­lega ábyrgð með stjórn­inni.“ Þetta hefur mbl.is eftir Andra Árnasyni, lögmanni Guðmundar Haukssonar fyrrum forstjóra SPRON, en málflutningur í SPRON-málinu svonefnda stendur nú yfir í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Í málinu er Guðmundur ákærður ásamt fjórum fyrrverandi stjórnarmönnum SPRON þar sem þau eru öll sökuð um að hafa misnotað aðstöðu sína hjá sjóðnum og stefnt fé hans í hættu með því að fara út fyrir heimildir þegar félagið lánaði Exista tvo milljarða króna. 

Lögmaður Guðmundar segir hann ekki hafa setið í stjórn SPRON þegar ákveðið var að lána Exista fjárhæðina. Frumskilyrði refsiábyrgðar, um að Guðmundur hafi verið í aðstöðu til að skuldbinda sjóðinn með þessum hætti, hafi ekki verið til staðar og því beri að sýkna hann af öllum kröfum ákæruvaldsins.

Stikkorð: Exista Guðmundur Hauksson SPRON