© Aðsend mynd (AÐSEND)

Guðrún Þórisdóttir, sölustjóri Iceland Excursions Allrahanda, var nýverið kjörin í stjórn Gray Line Worldwide á ársfundi samtakanna í Las Vegas í Bandaríkjunum. Gray Line Worldwide eru stærstu samtök i heimi sem framleiða og selja skoðunar- og pakkaferðir.

Í tilkynningu frá Iceland Excursions Allrahanda er haft eftir Þóri Garðarssyni, stjórnarformanni Iceland Excursions Allrahanda, að kjör Guðrúnar í stjórnina sé mikill heiður og viðurkenning á störfum Iceland Excursions Allrahanda.

„Fyrirtæki okkar og Ísland sem áfangastaður hefur vakið verðskuldaða athygli innan samtakanna fyrir nýsköpun og vöruþróun. Gray Line sækist eftir að virkja þessa þekkingu og reynslu og miðla áfram innan samtakanna. Svo er engin spurning að við eigum örugglega eftir að læra heilmikið af því að vera með fulltrúa okkar í miðri hringiðu starfseminnar,” segir hann en Iceland Excursions Allrahanda hefur verið handhafi viðskiptasérleyfis Gray Line í áratug. Á þeim tíma hafa umsvif félagsins tífaldast. Áætlanir gera ráð fyrir að velta Iceland Excursions verði um 2,1 milljarður króna í ár sem er tvöföldun frá árinu 2011.

Gray Line Worldwide er samstarfsvettvangur og sameign 190 fyrirtækja sem bjóða 3.500 skoðunarferðir og afþreyingu á rúmlega 700 áfangastöðum um allan heim. Viðskiptavinir eru yfir 25 milljónir á hverju ári. Samtökin fögnuðu 100 ára afmæli sínu fyrir tveimur árum.