Guðrún Aspelund hefur verið ráðin í starf sóttvarnalæknis en hún tekur við starfinu af Þórólfi Guðnasyni þann 1. september næstkomandi. Þetta kemur fram á vef embættis landlæknis í dag.

Guðrún er með embættispróf í læknisfræði frá Háskóla Íslands og sérfræðimenntun í almennum skurðlækningum og barnaskurðlækningum en þá hefur hún jafnframt lokið meistaranámi í líftölfræði. Undanfarin ár hefur Guðrún starfað sem yfirlæknir á sviði sóttvarna hjá landlækni en á árunum 2007 til 2017 starfaði hún sem lektor og barnaskurðlæknir við Columbia-háskóla.

Starf sóttvarnarlæknis var auglýst 13. maí síðastliðinn er Þórólfur tilkynnti um starfslok. Samkvæmt vef landlæknis var Guðrún ein umsækjenda um starfið.