Guðrún Lárusdóttir, framkvæmdastjóri Stálskipa í Hafnarfirði, hefur stefnt ríkinu til að fella niður auðlegðarskattlagningu á hendur sér niður og krefst hún þess að ríkissjóður endurgreiði 35 milljónir króna sem hún hefur greitt í auðlegðarskatt. Auðlegðarskattur var lagður á árið 2009.

Guðrún telur skattlagninguna brjóta í bága við eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Tekist er um mál hennar í Héraðsdómi Reykjavíkur en í stefnu hennar á hendur ríkinu er m.a. vísað í ákvæði laga og mannréttindasáttmála Evrópu um skatta. Gagnaöflun í málinu stendur enn yfir og liggur ekki fyrir hvenær aðalmeðferð fer fram í því.

Þetta mun vera fyrsta málið tengt auðlegðarskattinum svo vitað er sem ratað hefur í dómsal.

Auðlegðarskattur er lagður á nettóeign framteljanda, þ.e. allar eignir að frádregnum skuldum. Hlutabréfaeign er talin fram á nafnverði til auðlegðarskatts. Ef félagið er ekki skráð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði skal miða við hlutdeild í skattalegu bókfærðu eigin fé viðkomandi félags, samkvæmt lögum. Af auðlegðarskattsstofni yfir 75 milljónum króna að 150 milljónum hjá einstaklingi og yfir 100 milljónum og að 200 milljónum af samanlögðum auðlegðarskattsstofni hjóna greiðast 1,5%. Af því sem umfram er 150 milljónir hjá einstaklingi og 200 milljónir af af samanlögðum auðlegðarskattsstofni hjóna greiðast 2% í auðlegðarskatt.

Greiddu rúmar 180 milljónir í arð

Guðrún á beint 20% hlut í Stálskipum en fjölskylda hennar hin 80%. Stálskip gerir út frystitogarann Þór HF og eru þar 26 í áhöfn. Starfsmenn Stálskipa eru á milli 35 og 40. Fyrirtækið hafði yfir að ráða 1,2% af heildarúthlutuðum afla miðað við árin 2011/2012. Ársreikningur Stálskipa fyrir síðasta ár liggur ekki fyrir. Árið 2011 hagnaðist fyrirtækið um rúmar 738 milljónir króna samaborið við 571 milljón árið 2010. Samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir rúmum 3,2 milljörðum króna. Bókfært eigið fé nam rúmum 2,8 milljörðum króna.

Hluthafar fengu greiddar 114 milljónir króna í arð vegna afkomunnar 2010 og bættist það við tæplega 70 milljóna arð ári fyrr. Miðað við hlutafjáreign Guðrúnar nam arðgreiðsla til hennar tæpum 23 milljónum króna.

Útgerð Guðrúnar og fjölskyldu hefur til umráða 1,20 % af heildarúthlutum afla miðað við árin 2011/2012 og í dag gerir hún út frystitogarann Þór HF. Áhöfn Þórs telur 26 stöðugildi en í allt starfa 35-40 menn á sjó og þrír starfsmenn í landi. Guðrún lætur ekki bara til sín taka í fjölskyldufyrirtækinu heldur er hún atkvæðamikil í sinni atvinnugrein. Hún er formaður Útvegsmannafélags Hafnarfjarðar og eina konan í stjórn LÍÚ.