Lögmennirnir Óskar Sigurðsson, Guðjón Ólafur Jónsson og Teitur Már Sveinsson eru sestir í stjórn Securitas en fyrirtækið tilheyrir þrotabúi Fons.

Óskar er skiptastjóri þrotabúsins og hinir lögmennirnir tveir starfa fyrir hann. Guðjón Ólafur er sem kunnugt er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins.

Stefnt er að því að selja Securitas og hefja söluferlið á næstunni.

Trausti Harðarson, forstjóri Securitas, segir að reksturinn gangi vel. Sitt hlutverk sé að passa upp á heilbrigði starfseminnar á meðan það sé í þessu ferli.

Enn er óleystur ágreiningur milli skiptastjóra þrotabúsins og Landsbankans um veð í fyrirtækinu. Bankinn telur sig eiga veðið en því er skiptastjórinn ósammála. Það mun þó ekki tefja söluferlið, að mati skiptastjórans, eins og fram kom í frétt vb.is fyrr í dag.

Ágreiningnum verður skotið til dómstóla. Búist er við að þeir muni ekki taka sér langan tíma til að skera úr um málið.