Stjórnvöld í Eþíópíu hafa fyrirskipað seðlabanka landsins að rannsaka allan gullforða landsins í kjölfar þess að upp komst að gullstangir í vörslu bankans reyndust vera gullhúðaðir stálbitar.

Grunur fór að leika að maðkur væri í mysunni í peningahirslum seðlabankans í kjölfar þess að gull í eigu ríkisins var selt til Suður-Afríku. Í kjölfar þess að Suður-Afríkumennirnir komust að því að um glópagull væri að ræða sendu þeir stálstangirnar aftur til eþíópíska seðlabankans.

Yfirvöld hófu rannsókn á málinu og upp komst um uppruna gullhúðuðu stálstanganganna. Seljandinn var handtekinn en rannsókn málsins hefur leitt til fleiri handtaka og eru meðal annars starfsmenn seðlabankans og efnafræðingur sem starfar hjá jarðfræðistofnun landsins í haldi lögreglu. Það er jarðfræðistofnunin sem hefur það hlutverk að meta gullkaup seðlabankans.

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins, BBC, er það ekki bara það að málið tengist starfsmönnum seðlabankans og jarðfræðistofnunarinnar sem heldur vöku fyrir stjórnvöldum. Upp hefur komist að aðrar gullstangir sem hafa verið í hirslum seðlabankans eru einnig sviknar. Um er að ræða gullstangir sem gerða voru upptækar frá mönnum sem ætluðu að smygla þeim til Djíbútí.

Töluvert er að finna af gulli í Eþíópíu og þurfa þeir sem selja góðmálminn til seðlabankans að leita til jarðfræðistofnunarinnar til þess að fá vottun. BBC segir að ekki sé ljóst hvort að seðlabankinn hafi keypt falsað gull eða hvort að óprúttnir glæpamenn hafi skipt á því og raunverulegu gulli í hirslum bankans. Hverju sem því líður er ljóst að bankinn hefur tapað milljónum Bandaríkjadala og það blasir við um víðtæk