Gullverð hefur hækkað ört á undanförnum misserum og ekki verður séð að lát verði á þeim hækkunum á næstunni. Í því felst ákveðinn dómur yfir hagstjórn heimsins á umliðnum árum, en þó ekki síður spádómur um það sem koma skal.

Gull hefur frá fornu fari þótt einhver tryggasti og almennasti gjaldmiðill í heimi. Heimsveldi koma og fara, silfurskildingar, dollarar og evrur rísa, hníga og hverfa, en gullið bregst aldrei. Einmitt þegar óróinn er mestur og upplausnin alger er það gullið sem „blívur“.

Gull tók fyrst að hækka að ráði árið 2003 og hélt sú þróun áfram út bólutíðina miklu og fór raunar á flug árið 2006, áður en bankakreppan hófst (á meðan athyglisvert er að verðið hreyfðist varla í kringum hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 2001). Ekki er óvarlegt að telja þá þróun benda til þess að einhverjir hafi þá þegar áttað sig á því að bólan myndi springa innan tíðar. Er kemur að lánsfjárkreppu, bankakreppu og því öllu fer gullverðið hins vegar að ná áður óþekktum hæðum.

Hluta verðhækkunarinnar má þó rekja til annarra ástæðna, fyrst og fremst aukinnar velmegunnar og nýrrar miðstéttar í vanþroska heiminum, fyrst og fremst Kína og Indlandi, sem sett hefur mikinn þrýsting á gullmarkaðinn og ekki má heldur gleyma gullþorsta kínverskra stjórnvalda.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .