Heimsmarkaðsverð á gulli hefur lækkað töluvert í dag eða um rúm 2% og kostar únsan nú 1752,5 dali samkvæmt upplýsingum á vef Bloomberg. Gullverð hefur farið hækkandi á ný að undanförnu eftir að hafa lækkað mikið undir lok septembermánaðar. Í fyrradag var verð á þessum eðla málmi komið í tæpa 1.800 dali á ný en gull þykir sem kunnugt er með öruggari fjárfestingum sem völ er á. Fylgir gullverð jafnan væntingum fjárfesta um efnahagshorfur og þegar svartsýni manna tók að aukast á ný upp úr mánaðarmótum byrjaði verð að hækka.