*

laugardagur, 29. janúar 2022
Erlent 5. ágúst 2020 08:20

Gullverð yfir 2.000 dali í fyrsta sinn

BoA telur að gullverð geti farið upp í 3.000 dollara á næstu 18 mánuðum vegna Covid og viðskiptastríðs Bandaríkjanna og Kína.

Ritstjórn
epa

Gullverð heldur áfram að hækka og verð á einni únsu náði í fyrsta sinn yfir 2.000 dollara. Hækkunina má rekja til lágrar ávöxtunarkröfu skuldabréfa og ótta af áhrifum Covid-19 veirunnar á heimshagkerfið, samkvæmt frétt Financial Times

Verð á gulli hefur hækkað um 32% á árinu, að hluta til vegna mikillar eftirspurnar fjárfesta á gulltryggðum kauphallarsjóðum (ETF) en eignir þeirra hafa náð sögulegum hæðum. Fjárfestar settu 7,4 milljarða dollara í slíka sjóði í síðasta mánuði og rúmlega 40 milljarða dollara á fyrri helmingi ársins, samkvæmt tölum World Gold Council.

Raunávöxtunarkrafa 10 ára bandarískra ríkisbréfa náði sögulegu lágmarki í mínus 1,02% fyrr í mánuðinum, meðal annars vegna magnbundinnar íhlutunar Seðlabankans og eftirspurn fjárfesta eftir öruggum eignum.   

Ríkisstjórnir víðs vegar um heim hafa tilkynnt aðgerðapakka að andvirði 20 billjóna dollara, samkvæmt Bank of America, en það er um 20% hærra en verg landsframleiðsla allra ríkja heims. Bankinn telur að áhrif kórónaveirunnar og verra viðskiptasambands Kína og Bandaríkjanna gæti leitt til þess að verð á einni únsu af gulli nái 3.000 dollurum á næstu 18 mánuðum. 

Gullverð er þó ekki í sögulegu hámarki ef verðbólga er tekin með í spilið. „Þegar tekið er tillit til verðbólgu, þá náði gull hæstu hæðum í 2.500 dollurum, þegar skriðdrekar Sovétríkjanna fóru inn í Afghanistan árið 1979,“ er haft eftir Fahad Kamal hjá Kleinwort Hambros.  

Stikkorð: Gullverð gull