Frá og með 1. febrúar 2009 hefur miðlægri stjórnsýslu Háskóla Íslands verði skipt í tvo hluta; annars vegar í málefni vísinda og kennslu og hins vegar í málefni fjármála og reksturs.

Jón Atli Benediktsson, prófessor og aðstoðarmaður rektors og þróunarstjóri HÍ, verður aðstoðarrektor vísinda og kennslu jafnframt því að vera prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði.

Guðmundur R. Jónsson, prófessor og sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, verður framkvæmdastjóri fjármála og reksturs jafnframt því að vera prófessor í véla- og iðnaðarverkfræði. Um er að ræða breytingar á starfsskyldum þeirra Jóns Atla og Guðmundar án þess að neinn kostnaðarauki verði fyrir Háskóla Íslands.

Háskóli Íslands hefur stækkað um þriðjung á aðeins 6 mánuðum, fyrst um 25% við sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands 1. júlí 2008 og svo um 10% við inntöku fjölda nýnema um nýliðin áramót. Í ljósi mikillar stækkunar skólans og fjölgunar umfangsmikilla verkefna hefur háskólaráð ákveðið að gera breytingar á skipulagi miðlægrar stjórnsýslu skólans sem taki m.a. mið af skipulagi háskóla af sambærilegri stærð í nágrannalöndunum, þar sem aðstoðarrektorar, einn eða fleiri, hafa yfirumsjón með akademískum málefnum og framkvæmdastjóri hefur yfirumsjón með málefnum sem tengjast fjármálum og rekstri.

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, hefur því fengið heimild háskólaráðs til að nýta sér lagaheimild til að ráða aðstoðarrektor frá 1. febrúar.

Aðstoðarrektor vísinda og kennslu mun hafa yfirumsjón með málefnum vísindasviðs og kennslusviðs og framkvæmdastjóri fjármála og reksturs hefur yfirumsjón með málefnum fjármálasviðs, framkvæmda- og tæknisviðs, markaðs- og samskiptasviðs og starfsmannasviðs.

Þessar breytingar eru tímabundnar og gilda til loka skipunartíma núverandi rektors sem er 30. júní 2010.