Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að það hafi verið eini möguleikinni í ljósi stöðunnar í borginni að framsóknarmenn mynduðu meirihluta með sjálfstæðismönnum. Guðni kveðst hafa trú á því að nýir leiðtogar í borginni, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Óskar Bergsson, eigi eftir að leiða samstarfið áfram af farsæld út kjörtímabilið.

Guðni Ágústsson segir að Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi fyrst nefnt möguleikann á því að framsóknarmenn kæmu inn í meirihlutann í borginni fyrr í vikunni, líklega á miðvikudag. Í gær hafi svo Geir talaið við Guðna í síma og spurt hann um afstöðuna til meirihlutasamstarfs sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í borginni. „Ég sagði [við hann} að þetta væri sannfæring Óskars  Bergssonar og að ég myndi styðja Óskar í því að ganga til þessa samstarfs."

„Við Geir vorum engir gerendur"

Og Guðni bætir við: „Við [Geir] vorum hins vegar engir gerendur í þessu, hvorki ég né hann. Það hafði ekkert að segja eða nein áhrif. Við bjuggum þetta ekki til. Fyrst og fremst voru það þessir sterku leiðtogar Hanna Birna og Óskar. Hanna Birna var þeirrar skoðunar að hún væri með sprunginn meirihluta og að hún gæti ekki treyst Ólafi og hans mönnum lengur. Hún gerði sér grein fyrir því að það myndi allt sprynga í loft upp. Hún var í eldfimu ástandi. Og  Óskar var sannfærður um það, þegar hann talaði við mig, að það vær enginn annar möguleiki í Reykjavík því Óskar hefur ekki náð saman við Ólaf. Því var ekki annar valkostur á borðinu."

Fylgi framsóknarmanna í borginni hefur verið í lágmarki að undanförnu, ef marka má kannanir, og í nýlegri könnun Stöðvar 2 mældist það í kringum 2,1%. Þegar Guðni er spurður hvort hann telji að þetta nýja samstarf eigi eftir að bæta fylgið svarar hann: „Ég hef trú á því að Óskar eigi eftir að sýna styrk sinn með öflugu og sterku fólki sem hann dregur að sér úr flokknum til að vinna að þessu verkefni með sér. Ég hef trú á því að það sé betra að takast á við verkefnin og láta verkin tala heldur en að sitja yfir skoðanakönnunum með áhyggjusvip."

Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að Marsibil Sæmundsdóttir, varaborgarfulltrúi framsóknarmanna, styðji ekki nýjan meirihluta. Spurður út í það svarar Guðni: „Það kom mér á óvart hvað hún var hörð þótt ég vissi um hennar áhyggjur og að hún væri efins um að ganga í þetta samstarf. En hún segir nú reyndar að hún muni ekki stunda neina tækifærismennsku eða spilla fyrir Óskari. Það er stóra málið."

Ekki áhrif á landsmálin

Guðni segir aðspurður að þessar breytingar í borginni muni ekki hafa áhrif á landsmálin. Hann vísar til þess að víða um land starfi mismunandi flokkar saman í meirihluta, svo sem í Mosfellsbæ, í Árborg og á Akureyri. Nýtt samstarf í borginni hafi einfaldlega verið eina leiðin til að skapa ábyrgan meirihluta.

Guðni segir að fyrsti meirihlutinn í borginni eftir kosningarnar vorið 2006, þ.e. sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, hafi verið mjög farsæll, þótt samstarfið hefði síðan sprungið á REI-málinu. Framsóknarmenn hefðu í því samstarfi komið miklu í verk.