Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að Íbúðalánasjóður verði að vera áfram á almennum lánamarkaði. Heildsölubanki yrði feigðarflan.

Þetta kom fram í máli hans á fundi í Borgarnesi í fyrrakvöld.

Guðni er nú í hringferð um landið, þar sem hann heldur opna fundi undir yfirskriftinni: „Tími aðgerða í efnahagsmálum er runninn upp.“

Guðni kom víða við í ræðu sinni í fyrrakvöld. Þar sagði hann meðal annars að við öllum almenningi blasti gríðarleg kjaraskerðing. Ríkisstjórnin bæri þá ábyrgð með aðgerðarleysi sínu.

Guðni nefndi nokkur atriði sem þyrfti að gera. Efla þyrfti gjaldeyrisforðann verulega, lækka stýrivexti Seðlabankans tafarlaust, minnka opinberar álögur til að draga úr verðbólguþrýstingi og auka opinberar framkvæmdir án þess að þenja ríkisbáknið út.

Þá sagði Guðni að það bæri að skoða vel hvort setja ætti lög um aðskilnað banka- og fjármálastarfsemi.