Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra hefur ráðið prófessor Guðna A. Jóhannesson PhD, sem nú gegnir stöðu forstöðumanns Byggingartæknideildar Konunglega Verkfræðiháskólans í Stokkhólmi, orkumálastjóra frá 1. janúar 2008 til næstu fimm ára.

Guðni hefur veitt Byggingartæknideild Verkfræðiháskólans forstöðu síðastliðin 13 ár og borið ábyrgð á fjármögnun hennar og rekstri. Hann hefur sem prófessor skipulagt og stjórnað rannsóknum, bæði grundvallarrannsóknum og hagnýtum, og tengt þær við atvinnulífið og samfélagið. Hann hefur átt þátt í að stofna nokkur sprotafyrirtæki á Íslandi og í Svíþjóð, starfað sem stjórnandi og setið í stjórn nokkurra fyrirtækja. Guðni er virtur innan alþjóðasamfélagsins og hefur haldið fjölda erinda á alþjóðlegum ráðstefnum á sviði orkumála.

Guðni hefur yfirgripsmikla þekkingu á orku– og auðlindamálum, og hefur frá 1990 starfað sem prófessor með sérstaka áherslu á orkunýtingu húsa. Rannsóknir hans hafa að mestu snúist um orkunýtingu í byggingum og hinu byggða umhverfi og þær vísindagreinar og ráðstefnugreinar sem hann hefur skrifað liggja flestar á því sviði. Í fyrstu beindust rannsóknirnar að hitajöfnun í byggingum og bættri einangrun en á seinni árum hafa þær í auknum mæli beinst að samspili húshitunar og mismunandi orkugjafa og þá sérstaklega að nýtingu lághitaorku til hitunar og kælingar húsnæðis.

Guðni hefur sterka framtíðarsýn fyrir Orkustofnun sem burðarás í þekkingaröflun og mótun orkustefnu. Umhverfisþáttur orkuferlisins og hlutur hans í sjálfbærri þróun samfélagsins er sérstakt áhugamál og viðfangsefni Guðna svo og ímynd íslenskrar orku og orkutengdrar framleiðslu á alþjóðlegum markaði.

Umsækjendur um starf orkumálastjóra voru níu. Þrír þeirra voru kvaddir til sérhæfðra viðtala. Doktor Guðni A. Jóhannesson telst hæfastur umsækjenda að mati ráðuneytisins til að gegna starfi orkumálastjóra vegna menntunar sinnar og áralangs starfs á alþjóðavettvangi að orkunýtingar- og auðlindamálum auk reynslu af stjórnun og rekstri. Á þeim grundvelli hefur ráðherra ráðið í embættið.

Verkefni orkumálastjóra eru að annast daglega stjórn Orkustofnunar og bera ábyrgð á fjárrreiðum og starfsmannahaldi hennar, ábyrgjast öflun orkurannsókna, leiða árangursstjórnun við rekstur stofnunarinnar, bera ábyrgð á stjórnsýsluverkefnum hennar og vera stjórnvöldum til ráðgjafar í orkumálum, auk þess að standa fyrir fræðslu um orku- og auðlindamál.