Ákæra hefur verið gefin út af ríkissaksóknara á hendur Gunnari Andersen, fyrrum forstjóra Fjármálaeftirlitsins, og starfsmanni Landsbankans fyrir brot á þagnarskyldu. Málið snýst um öflun fjárhagslegra upplýsinga um Guðlaug Þór Þórðarson innan Landsbankans sem síðar var komið til DV. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Gunnar hefur verið ákærður fyrir brot á þagnarskyldu með því að brjóta bankaleynd til viðbótar við ákæru fyrir brot í opinberu starfi samkvæmt fréttinni. Ákæran var gefin út um miðjan júli og getur brot á þagnarskyldu varðað allt að þriggja ára fangelsi.

Starfsmaður Landsbankans, sem einnig hefur verið ákærður, var sendur í í ótimabundið leyfi eftir að málið kom upp. Auk þeirra tveggja höfðu Ársæll Valfells, lektor við Háskóla Íslands, og Ingi Freyr Vilhjálmsson, fréttastjóri DV, réttarstöðu sakborninga í málinu. Mál þeirra tveggja síðastnefndu var hins vegar látið niður falla.