Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fagnar auknum áhuga kínverskra fjárfesta á því að fjárfesta hér á landi. Í frétt RÚV er einnig haft eftir honum að menn séu allt of neikvæðir í garð áforma um álver í Skagabyggð og vonar að að þau nái fram að ganga.

Kínverskir fjárfestar lögðu á dögunum 6 milljarða króna inn í fyrirtækið Carbon Recyling. Aðrir vilja reisa álver við Hafursstaði í Skagabyggð og undirrituðu viljayfirlýsingu þess efnis fyrir helgi. Þá hafa fjölmiðlar greint frá áhuga kínverskra fjárfesta á því að kaupa hlut í Íslandsbanka.

Gunnar Bragi fagnar þessu og segir enga ástæðu til að setja spurningarmerki við þennan mikla áhuga.

„Nei þetta er fagnaðarefni. Við eigum að fagna því þegar menn vilja fjárfesta í Íslandi. Ég sé engan mun á því að peningarnir komi frá Kína eða annars staðar, ef menn eru fjárfestar og fara að íslenskum lögum og reglum. Ég vona svo sannarlega að það verði mikill áhugi áfram á Íslandi frá Kína og frá öðrum löndum. Við viljum hafa sem flesta sem vilja fjárfesta í Íslandi.“