Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ítrekarði stuðning Íslands við sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna og gagnrýndi landnám  Ísraelsmanna á hernumdu landi, þar á meðal í Jerúsalem, í ræðu sem hann hélt á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna  í dag.

Þá rifjaði Gunnar Bragi upp heimsókn Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til Íslands í sumar og einkum ferð hans að Langjökli þar sem hann hefði kynnst af eigin raun bráðnun jökla. Í heimsókninni hefði Ban kynnt Íslendingum starf samtakanna og hvernig þau réðu úrslitum lífi ótalinna einstaklinga. Flóttamenn nytu aðstoðar, mannúðaraðstoð væri veitt og lífi barna væri bjargað.

„Sameinuðu þjóðirnar eru afl til góðs í heiminum. Saman getum við skipt sköpum, sameiginlega getum við verndað umhverfið, tryggt frið og bjargað mannslífum. Því sameinaðri sem við erum, því betri er heimurinn,“ sagði Gunnar Bragi.