Gunnar Ingi Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Hagkaupa, segir í tilkynningu frá félaginu, og tekur hann við stöðu Finns Árnasonar. Finnur hefur tekið við sem forstjóri Haga.

Gunnar Ingi, sem er 37 ára, hefur verið rekstrarstjóri verslana Hagkaupa frá árinu 1998. Hann er viðskiptafræðingur að mennt frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst. Einnig hefur hann lokið prófi í iðnrekstrarfræði frá Tækniskóla Íslands.

Gunnar Ingi var framkvæmdastjóri Bónus birgða 1997-1998 og var sölustjóri hjá Nóa Síríus frá 1994-1997. Hann er kvæntur Ástu Birnu Stefánsdóttir og eiga þau fjögur börn.