Gunnar Þ. Andersen forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME), hafnar því alfarið að hann sé höfundur þess kaupréttarkerfis sem var við lýði í Landsbanka Íslands fyrir bankahrun, en það kerfi er nú til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara vegna gruns um  að það hafi verið nýtt í markaðsmisnotkun. Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns Þ. Árnasonar, sagði fyrr í dag að Gunnar væri höfundur kaupréttarkerfisins. Gunnar segir þá fullyrðingu alranga.

„Ég held að lögmaður Sigurjóns Þ. Árnasonar verði að beita einhverjum öðrum rökum í málflutningi sínum ef hann ætlar að hjálpa skjólstæðingi sínum. Ég hafna því alfarið að hafa verið höfundur þessa kaupréttarkerfis. Ég sat að vísu í stjórnum aflandsfélaga eins og hefur komið fram áður. En það félag sem ég hafði aðkomu að hafði ekkert með þetta kaupréttarkerfi að gera heldur rak sjóði sem voru skráðir í kauphöllina á Guernsey,“ segir Gunnar í samtali við Viðskiptablaðið.

Gunnar starfaði hjá Landsbankanum fram til loka árs 2002. Vegna þess segist hann ekki hafa komið að neinum málum sem snerta bankann og hafa verið til rannsóknar hjá FME. „Ég tók þá ákvörðun þegar ég kom til eftirlitsins í apríl 2009 að víkja sæti í öllum málum sem snúa að Landsbankanum. Ég hef haldið mig við það og ekki komið að einu einasta máli sem snýr að bankanum.“