Gunnar Zoëga hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Notendalausna hjá upplýsingatæknifyrirtækinu Origo, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Jafnhliða hefur Gunnar tilkynnt úrsögn sína sem varamaður úr stjórn Origo.

Emil Einarsson, sem hefur starfað sem framkvæmdastjóri Notendalausna, verður forstöðumaður Viðskiptatengsla hjá Origo.

„Gunnar var framkvæmdastjóri hjá Origo um árabil en hefur undanfarið ár setið sem varamaður í stjórn Origo. Hann þekkir vel til okkar atvinnugreinar og er öllum hnútum kunnugur í starfsemi Origo. Það er afar ánægjulegt fá að njóta krafta Gunnars sem stjórnanda hjá Origo á ný,“ er haft eftir Finni Oddsyni forstjóri Origo.

„Viðskiptatengsl fá útvíkkað hlutverk og munu leggja áherslu á sérfræðiráðgjöf í upplýsingatækni gagnvart stærri viðskiptavinum, efla tengsl við þá, samræma sölustarf þvert á Origo og bjóða viðskiptavinum virðisaukandi lausnir sem auka hagkvæmni í rekstri. Emil Einarsson hefur áralanga reynslu í sölustarfi og býr yfir mikilli þekkingu á upplýsingatæknirekstri fyrirtækja. Við bindum því miklar vonir við að með starfi Viðskiptatengsla muni þjónustu við viðskipavini okkar í síbreytilegum heimi upplýsingatækni eflast enn frekar,“ segir Finnur.

Í framkvæmdastjórn Origo sitja, auk forstjóra, Dröfn Guðmundsdóttir, Gunnar Petersen, Gunnar Zoëga, Hákon Sigurhansson, Ingimar Bjarnason og Örn Alfreðsson.