Guðrún Erla Jónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur ehf. Guðrún hefur starfað sem skrifstofustjóri fyrirtækisins auk þess að sinna ýmsum sérverkefnum fyrir stjórn O.H.ehf.

Guðrún Erla, sem er 29 ára gömul, hefur lokið M.Sc. prófi í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands og B.Sc. prófi í ferðamála- og viðskiptafræði frá sama skóla.

Hluta af námi sínu stundaði Guðrún Erla í erlendum háskólum. Við B.Sc. nám dvaldi hún í Bandaríkjunum og í M.Sc. náminu í Danmörku, þar sem hún lauk um helmingi námsins.

Guðrún hefur umtalsverða reynslu á sviði alþjóðaviðskipta og hefur hún meðal annars starfað hjá Lýsi hf. sem nýverið hlaut útflutningsverðlaun Forseta Íslands 2007.