Meyja ehf., áður Gyðja ehf., eignarhaldsfélag utan um framleiðslu, hönnun og sölu á skóm, fatnaði og ilmvötnum sem var markaðssett undir nafninu Gyðja Collection hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Í síðasta birta ársreikningi félagsins kemur fram að það tapaði 12,2 milljónum króna á árinu 2011. Tekjur ársins námu samtals 21,1 milljón króna. Árið áður nam tapið 2,6 milljónum. Félagið var með neikvætt eigið fé í árslok 2011 sem nam um 10,5 milljónum króna en helstu skuldir félagsins voru 23,7 milljóna yfirdráttur og skammtímabankalán.

Í árslok 2011 var Sigrún Lilja Guðjónsdóttir skráð fyrir 96% hlut samkvæmt ársreikningi Gyðju ehf. Ekki náðist í Sigrúnu Lilju við vinnslu fréttarinnar.

Viðbót: Saga Ýrr Jónsdóttir lögmaður Gyðju Collection ehf. sendi eftirfarandi athugasemd vegna fréttarinnar. „Vegna fréttar sem birtist í dag þann 24. nóvember 2013 er vert að benda á að Gyðja Collection ehf. er ekki gjaldþrota. Gyðja Collection ehf. heldur meðal annars utan um sölu á úrum og töskum. Einnig er félagið með þrjár tegundir af ilmvötnum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .