Íslensk fljótandi króna er of lítill gjaldmiðill til þess að vera grundvöllur nýrrar þjóðarsáttar. Þetta segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Í Fréttablaðinu er rætt við Gylfa af því tilefni að margri stjórnmálaflokkar hafa talað fyrir mikilvægi nýrrar þjóðarsáttar um stöðugleika.

„Frá því að krónunni var fleytt árið 2001 hefur þetta verið samfelld hörmungarsaga með okkar gjaldmiðil,“ segir Gylfi. Hann vísarí skýrslu Seðlabankans þar sem fram komi að krónan hafi valdið efnahagssveiflum en ekki jafnað þær. Hann segir ASÍ opið fyrir viðræðum um þjóðarsátt, en það velti á því hvernig stjórnmálamenn hyggist tryggja stöðugan gjaldmiðil.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í Fréttablaðinu SA vilja kanna kosti þess að taka upp fastgengisstefnu á ný. „Í kjölfar þjóðarsáttar síðast upplifðum við í fyrsta skipti, nánast í sögu hagstjórnar á Íslandi, tímabil með stöðugu gengi og lágri verðbólgu,“ segir Þorsteinn. Þá hafi verið byggt á föstu gengi.