Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir í tilkynningu að honum sé gróflega misboðið af framgöngu félaga sinna á vettvangi verkalýðsforystunnar sem hafa gagnrýnt nýundirritaða kjarasamninga sem og því hvernig fjölmiðlar hafa hampað þeim að hans sögn.

Að sögn Gylfa voru fimm félög innan Starfsgreinasambands Íslands sem ákváðu að skrifa ekki undir samninginn án þess að draga til baka umboðið sem þau höfðu falið Starfsgreinasambandinu. Í þessum félögum eru um 3.000 félagsmenn af 81.000 félagsmönnum sem samningarnir ná til.

Samkvæmt Gylfa hefðu tillögur þeirra sem gagnrýnt hafa samningana skilað mun meirra til tekjuhærri aðila en þeirra tekjulægri miðað við samningana sem voru undirritaðir. Birtir hann mynd af leiðunum tveimur til skýringar. Pistill Gylfa má lesa í heild sinni hér að neðan:

Leiðir - kjarasamningar
Leiðir - kjarasamningar
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Af ásökunum um aukna misskiptingu vegna nýgerðra kjarasamninga

Síðastliðin laugardag var gengið frá kjarasamningum milli flestra aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands vegna þeirra sem starfa á almennum vinnumarkaði. Þau félög sem ekki gengu frá samningum voru sjómannafélögin, sem staðið hafa í vinnudeilu við LÍÚ síðan 2010, Flugfreyjufélag Íslands og Félag mjólkurfræðinga.

Kjarasamningurinn er svokallaður aðfarasamningur. Auk launabreytinga með áherslu á hækkun lægstu launa gefur samningurinn samningsaðilum 12 mánuði til að undirbúa gerð langtímasamnings sem á að tryggja stöðugleika í íslensku efnahagslífi og kaupmáttaraukningu til framtíðar. Vinna við undirbúning slíks langtímasamnings hefst strax í byrjun nýs árs. Með samningnum er tekin upp sú nýbreytni að gengið er frá sérstakri viðræðuáætlun sem unnið verður eftir með tímasettum markmiðum um framvindu.

Viðræður hafa staðið yfir síðan í september og snemma varð ljóst að um erfiðar viðræður yrði að ræða, vegna mikillar óvissu um framvindu efnahagsmála á næstu misserum, stefnu ríkisstjórnar í efnahags- og velferðarmálum og breytinga í forystu Samtaka atvinnulífsins. Tvisvar hefur slitnað upp úr viðræðum þar sem atvinnurekendur ýmist höfnuðu viðræðum um sérstakar áherslur fyrir þá tekjulægstu eða vildu leggja svo lítið til þeirra mála að ekkert þokaðist í viðræðum. Það er því nokkuð merkilegt að hlusta á þær gagnrýnisraddir sem komið hafa fram, því það er ekki svo að verkalýðshreyfingin hafi sjálfdæmi um launahækkanir. Þvert á móti er hér um nokkuð harða hagsmunabaráttu að ræða og ekki sjálfgefið hver niðurstaðan er. Það má alveg segja það hér að SA var lengst af klossfast í því að launahækkanir yrðu ekki meiri en 2% og þeir höfnuðu alfarið krónutöluhækkun á lægstu launin. Niðurstaðan varð hins vegar sú að lægstu laun hækkuðu um ríflega 5% þegar ASÍ hafði náð inn krónutöluhækkuninni.

Af hálfu aðildarfélaga ASÍ var lagt upp með kröfur um kjarasamninga sem myndu styðja við eða leggja grunn að stöðugleika í bæði gengi og verðlagi, þannig að það sem umsemdist skilaði sér sem varanleg kaupmáttaraukning en hyrfi ekki jafnharðan með aukinni verðbólgu. Jafnframt var lögð áhersla á sérstakar hækkanir fyrir þá tekjulægstu. Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands lagði fyrst sambanda fram sína kröfugerð sem Samtök atvinnulífsins höfnuðu þegar á fyrsta fundi, en þar var gerð krafa um hækkun launataxta um 20.000 kr. á mánuði, að bil milli flokka og starfsaldurbila yrði aukið, ýmis störf endurröðuð í launatöflu og jafnframt að almenn launahækkun yrði 7%. Var talið að í heild myndi samningur sem reistur yrði á þessum kröfum kosta atvinnulífið 10-12%.

Þó verkalýðshreyfingin hefði deilt við atvinnurekendur um þolmörk atvinnulífsins m.t.t. launahækkana voru miklar efasemdir um að kostnaðarhækkun samkvæmt kröfugerð SGS væri framkvæmanleg án neikvæðra áhrifa á þróun verðlags, gengis og vaxti. Því var ljóst að ekki yrði hægtað byggja sameiginlega stefnumótun á vettvangi ASÍ á þessari kröfugerð. Samninganefnd ASÍ lagði til við samninganefndir aðildarsamtaka ASÍ í byrjun nóvember að stefnt yrði að svokölluðum aðfararsamningi sem yrði skammtímasamningur í formi vopnahlés, þar sem áhersla yrði lögð á einfalda lausn en vinna þegar hafinn við að undirbúa lengri kjarasamning í lok næsta árs sem byggt gæti á meiri fyrirsjáanleika varðandi gengi og verðlag, hagvöxt og jöfnuð. Þessi nálgun byggði á niðurstöðu fundar formanna allra aðildarfélaga ASÍ sem haldinn var í lok október. Þá var af hálfu samninganefndarinnarlagt upp með launahækkanir sem væru á bilinu 3-3,25% en að lágmarki kr. 10- 11.000. Þetta var samþykkt í öllum samninganefndum aðildarsambanda ASÍ. Niðurstaðan varð síðan 2,8% launahækkun en að lágmarki kr. 8.000 og sérstaka láglaunahækkun upp á einn launaflokk eða kr. 1.750. Þannig hækka lægstu laun um tæpar 10.000 kr. Þá ætla samningsaðilar að ná víðtækri samstöðu um að rjúfa vítahring verðbólgunnar og hafa stærstu sveitarfélög landsins og ríkið að hluta gengist inn á þá leið auk þess sem Samtök atvinnulífsins munu leggja hart að sínu fólki að hækka ekki verð á vöru og þjónustu.

Þegar kom að lokum viðræðna var ljóst, að nokkuð bar í milli ASÍ og SA, bæði er varðar almennu launahækkunina og sérstaka hækkun fyrir þá lægst launuðu. Áttu fulltrúar ASÍ og SA fund með fjármálaráðherra og fulltrúa forsætisráðherra þar sem þess var óskað að ríkisstjórnin myndi útfæra boðaða skattalækkun með þeim hætti að þrepið milli lægsta skattþrepsins og milliþrepsins yrði hækkað úr 256 þús.kr. í 295 þús.kr. og að persónuafsláttur yrði hækkaður um 1.000 kr. til viðbótar við hækkun hans vegna verðbólgu. Var það mat aðila að slík aðkoma ríkisstjórnar myndi auðvelda gerð kjarasamninga. Ríkisstjórnin ákvað að ganga að tillögu ASÍ varðandi mörkin milli þrepanna en hafnaði alfarið að hækka persónuafsláttinn aukalega en lækkaði skatthlutfalli í milliþrepi um 0,5%. Var þetta mjög miður, því þar með var tekjulægsta fólkið skilið eftir í þessari skattaaðgerð en þess í stað voru skattar þeirra allra tekjuhæstu lækkaðir meira.

Það varð niðurstaða allra samninganefnda aðildarfélaga ASÍ á laugardagsmorgun að ganga til samninga þrátt fyrir þessa niðurstöðu, þó mikil reiði hefði verið í garð ríkisstjórnarinnar vegna þess að hún vildi frekar lækka skatta þeirra 10% launamanna sem hæstar hafa tekjurnar en að tryggja að þau 10% launamanna sem eru í hópi tekjulægsta fólksins fengju einhverja hlutdeild í þessari skattalækkunaraðgerð. Ég er nokkuð viss um að niðurstaða samninganefndanna var ekki byggð á því að þeir teldu það sem á borðinu væri í samræmi við óskir þeirra eða væntingar, heldur frekar hvort líklegt væri að hægt yrði að ná frekari launahækkunum án verulegra átaka og tilkostnaðar sem ekki rynnu sjálfkrafa út í verðlagið þannig að lítið sæti eftir annað en tilkostnaðurinn við aðgerðirnar.

Fimm félög innan Starfsgreinasamgands Íslands ákváðu að skrifa ekki undir kjarasamning sambandsins á laugardagskvöldið, en ákváðu þó að standa að samningunum, því að félögin drógu ekki til baka umboð sem þau höfðu falið Starfsgreinasambandinu til að gera kjarasamning fyrir sína hönd sem þeim var þó í lófa lagið. Í þessum félögum eru ríflega 3.000 félagsmenn af þeim 81.000 félagsmönnum sem umræddir kjarasamningar ná til, eða um 4,7%. Samkvæmt Vinnulöggjöfinni er það mjög skýrt að umboð til gerðar kjarasamninga hvílir hjá hverju stéttarfélagi fyrir sig en þau geta framselt þetta umboð til sérgreinasambanda eða heildarsambanda ef þau kjósa svo. Jafnframt geta stéttarfélögin alltaf afturkallað slíkt umboð, telji forystumenn þeirra að sá kjarasamningur sem í boði er sé óviðunandi. Óánægja þessara forystumanna með innihald samninga var ekkert einsdæmi, margir r voru ósáttir með afstöðu ríkisstjórnarinnar gagnvart þeim tekjulægstu. Það var hins vegar greinilegt að forystumenn þessara félaga voru sammála félögum sínum um stöðumatið, að ekki væri líklegt að þeir gætu sótt eitthvað meira með því að afturkalla umboðið til gerðar kjarasamninga því það gátu þeir gert alveg fram að undirritun samninganna kl. 21:00 á laugardagskvöldið. Því undirritaði meirihluti samninganefndar Starfsgreinsambands Íslands kjarasamninganna fyrir hönd allra aðildarfélaga SGS og félagsmenn þessara stéttarfélaga munu ásamt öðrum fá tækifæri til þess að lýsa skoðun sinni á þessum samningum í janúar. Það vekur undrun, í ljósi þess að framangreindir forystumenn ákváðu að afturkalla ekki umboðið til gerðar kjarasamnings, hvernig sumir þeirra hafa síðan af mikilli vandlætingu og virðingarleysi ráðist á félaga sína . Um þverbak keyrir þegar þeir fullyrða að þessir kjarasamningar, þar sem enn einu sinni er lögð áhersla á að hækka lægstu laun hlutfallslega meira en önnur laun, leiði til aukinnar misskiptingar og að ég og aðrir forystumenn hafi valið þessa leið vegna eigin hagsmuna!

Ég verð að viðurkenna að mér er gróflega misboðið, ekki bara framganga þessara félaga minna heldur ekki síður hvernig fjölmiðlar hafa hampað þessum aðilum án þess að leita eftir skoðunum forystumanna þeirra 95% félagsmanna sem ákváðu að axla fulla ábyrgð á stöðumatinu með undirritun kjarasamninganna

Í meðfylgjandi mynd má sjá launahækkanir í krónum talið frá kr. 192.000 til tæplega kr. 2.000.000 mánaðarlauna samkvæmt nýgerðum kjarasamningum annars vegar og áherslum þeirra sem gagnrýnt hafa samningana hins vegar. Þar sést glöggt, að ef farið hefði verið að þeirra tillögum, hefðu laun þeirra sem eru með 2 mill.kr. hefðu hækkað um 140.000 krónur á mánuði í stað þeirra kr. 56.000 sem verður samkvæmt samningunum. Og af því að þeim finnst rétt að tiltaka hvað líklegt er að ég fái í launahækkun, hefði ég hækkað um ríflega kr. 84.000 samkvæmt þeirra tillögu, í stað ríflega kr. 33.000, og þá er einnig rétt að hafa það í huga að leiðtoginn á Akranesi hefði hækkað um ríflega kr.55.000 skv. hans hugmyndum, í stað þeirra kr. 22.000 sem hann fær. Ef mælikvarðinn á árangur er áhrif þessara mismunandi leiða á bæði misskiptinguna eða okkar eigin hag, er nokkuð ljóst hvor tillagan hefur meiri áhrif og þá í hvaða átt!“