Rekstur Eimskipafélagsins gengur í sjálfu sér vel. Ef ekki væri fyrir erfiða greiðslubyrði og vexti væri verkefnið mun auðveldara.

Þetta segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskipafélagsins í samtali við Viðskiptablaðið í dag en í gærkvöldi sendi félagið frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því að samkomulagi um áframhaldandi frestun vaxtagreiðslna á skuldabréfum útgefnum af félaginu.

Í tilkynningunni kom fram að Eimskip hefur þegar fengið undirritað samþykki um 75% skuldabréfaeigenda þessara flokka og áfram er unnið að því að ná sama samkomulagi við þann hluta eigenda skuldabréfa sem ekki hafa gengið frá samningi við félagið.

Þá kom fram að eignir félagsins í Norður Ameríku séu nú í sölumeðferð en þar er um að ræða 127 frystigeymslur. Gylfir segir í samtali við Viðskiptablaðið að ekki sé hugað að frekari sölu eigna í bili en áfram verði unnið að endurskipulagningu félagsins.

„Reksturinn hér gengur vel, við erum ekki í erfiðleikum með að greiða laun og við höfum náð rekstarkostnaði töluvert niður,“ segir Gylfi og bætir því við að Eimskipafélagið hafi ekkert þurft að leita eftir fyrirgreiðslu hjá bönkunum til að standa undir rekstrinum frá því að þeir hrundu í byrjun október.

Hann segir þó að þegar fyrrnefnd skuldabréf falli á gjalddaga muni félagið þurfa aðstoð banka og fjármálafyrirtækja.

Jafnvægi að skapast á inn- og útflutningi

Aðspurður um horfur næstu missera segir Gylfi þær almennt góðar fyrir félagið. Hann tekur sérstaklega fram að meira jafnvægi sé nú að skapast á milli inn- og útflutnings sem geri nýtingu skipa Eimskipa betri, þ.e. að þau sigli með fullan farm bæði til og frá landinu.

„Innflutningur er að aukast hægt og rólega. Við vorum búin að ná botninum að ég held á innflutningi en erum á leiðinni upp aftur. Á móti kemur að útflutningurinn hefur vegið upp mismuninn,“ segir Gylfi.

Þá segir hann að mikið offramboð hafi myndast á skipum síðustu misseri þar sem bæði flutningafyrirtæki og eins skipaleigur séu að leggja skipum sínum við bryggju vegna verkefnaskorts.

Þannig hafi Eimskipafélagið losað sig við 4 skip á síðustu misserum sem öllu voru tekin á leigu af félaginu. Með því hafi leigukostnaður félagsins lækkað verulega sem séu mjög jákvæðar fréttir fyrir Eimskip.

Hann áætlar að Eimskipafélagið hafi dregið úr starfssemi um 27% á undanförnum misserum.