Útgerðin Blakkness sem er í eigu feðganna Sigurðar Aðalsteinssonar, og sona hans Ólafs Más Sigurðssonar, Gylfa Þórs Sigurðssonar, atvinnumanns í knattspyrnu hjá Everton, hefur fjárfest í nýjum bát, Huldu GK, sem er 11,99 metrar og 29,5 brúttótonn. Þetta kemur fram í viðtali við Sigurð á vef Fiskifrétta.

Sigurður segir koma bátsins marka tímamót fyrir útgerðarfélagið en heimahöfn Huldu GK er í Sandgerði. Sigurður segir Gylfa hafi tekið þátt í fjárfestingu í Huldu GK en ólíklegt sé að Gylfi verði munstraður á bátinn.

„Hann hefur gaman af því að veiða samt og gerir talsvert af því á flugustöng og á færi líka. Það má vel vera að hann skreppi á sjó í sumarfríinu. Helmingnum af sumarfríinu ver hann samt yfirleitt í þágu lands og þjóðar í landsleiki og ferðalög. Honum gefst því venjulega lítill tíma til veiða,“ segir Sigurður við Fiskifréttir.

Hulda GK kemur frá bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði og er báturinn sá stærsti sem Trefjar hafa smíðað.