Opinberar stofnanir brugðust eftirlitshlutverki sinu og gættu ekki hagsmuna almennings í þeim uppgangi sem varð hér á landi síðustu árin.

Á sama tíma lánuðu viðskiptabankarnir án þess að hafa varkárnissjónarmið að leiðarljósi auk þess að skuldsetja sig um of.

Þetta kom fram í máli Gylfa Zoega, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands á fyrirlestri í HÍ í dag en fyrirlestur Gylfa er hluti af fundaröð skólans um mannlíf og kreppur.

„Ef það eru reglur í landinu þarf að fylgja þeim eftir“ sagði Gylfi á fyrirlestri sínu og sagði að hið opinbera, þá helst Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hefði átt að fylgjast með því sem var að gerast í bönkunum.

Gylfi rakti í fyrirlestri sínum hvernig ríkt hefði mikil bjartsýni í viðskiptalífinu síðustu árin. Þannig hafi nægt framboð verið af lánsfjármagni, bankarnir einkavæddir og svo framvegis.

„Þetta var ekki bara ímyndun heldur voru góðir hlutir að gerast,“ sagði Gylfi og bætti við að bankarnir hefðu í stórum stíl staðið á bakvið fyrirtækjum sem starfa enn í dag.

Vorið 2007 hefði hins vegar byrjað sú atburðarrás sem leitt hefur til hruns íslensku bankanna og íslensks efnahagslífs. Fasteignaverð í Bandaríkjunum hefði farið lækkandi, bankar erlendis byrjað að tapa fjármagni sem síðan hafi leitt til þess að þeir vildu ekki lána eins og áður. Í kjölfarið hafi verið erfitt fyrir íslenskt fjármálalíf að verða sér út um lánsfjármagn og „afleiðingarnar þekkjum við öll,“ sagði Gylfi.

Allir treystu á vaxandi eignamyndun

Gylfi sagði í fyrirlestri sínum að viðskiptasamband einstaklinga og banka ætti að byggjast á langtímaviðskiptum og trausti. Undir venjulegum aðstæðum þyrftu einstaklingar að ávinna sér traust bankans með því að standa í skilum og eiga viðskiptasögu við bankann. Hins vegar hefði það farið forgörðum í uppgangi síðustu ára og bankarnir lánað of mikið.

Þannig lýsti Gylfi því hvernig einstaklingum hefði fundist í lagi að eyða um efni fram og skuldsett sig í þeirri von að eignir þeirra myndu hækka í verði. Að sama skapi hefðu fyrirtæki og ekki síst bankarnir skuldsett sig í þeirri von að eignir þeirra myndu vaxa.

Munum lifa á verðmætasköpun og útflutningi

Gylfi sagði hins vegar að útlitið framundan væri ekki endilega jafn dökkt og margir héldu. Þannig sæju útflutningsfyrirtæki fram á betri afkomu vegna veikingu krónunnar. Í framhaldinu myndu Íslendingar hætta að taka erlend lán til að fjármagna eyðslu.

Gylfi minnti á að framleiðsluþættirnir í þjóðfélaginu, svo sem fiskimið, orka og mannafli væru óskertir. Nú ætti sér stað hreinsun í hagkerfinu og í framhaldinu yrðu til ný fyrirtæki og önnur liða undir lok.

„Við munum lifa á verðmætasköpun og útflutningi en ekki innflutningi,“ sagði Gylfi og vísaði þar til byggingastarfssemi og fjármálastarfssemi.