Háskólaprófessorinn Gylfi Zoëga var dúfan í hópi meðlima peningastefnunefndar Seðlabankans í fyrra og studdi lága vexti í fyrra á sama tíma og breski hagfræðingurinn Anne Sibert, var haukurinn sem var á öndverðum meiði. Þetta kemur fram í ársskýrslu Seðlabankans sem birt var í gær. Í skýrslunni kemur fram hvernig atkvæði féllu á vaxtaákvörðunarfundum bankans á síðasta ári.

Greining Íslandsbanka segir í umfjöllun sinni um skýrsluna og Peningastefnunefnd Gylfa hafa oft á tíðum verið þeirrar skoðunar að vaxtaaðhald bankans ætti að vera minna en niðurstaðan var hverju sinni, og greiddi hann í þrígang af 8 skiptum atkvæði á móti tillögu Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Þá hafi hann einu sinni kosið lægri vexti en raunin varð þó hann greiddi tillögunni atkvæði sitt.

Á móti greiddi Anne Sibert einu sinni af sjö skiptum (hún var eitt sinn fjarverandi) atkvæði með hærri vöxtum en samþykktir voru, auk þess sem hún hefði einu sinni kosið vaxtahækkun þótt hún hafi greitt tillögu Seðlabankastjóra um óbreytta vexti atkvæði sitt.

Utanaðkomandi oftar ósammála um aðhald

Ofangreindir nefndarmenn, þ.e. Anne Sibert og Gylfi, eru þau einu sem eru utanaðkomandi í peningastefnunefnd, en auk þeirra og Seðlabankastjóra skipa nefndina aðalhagfræðingur Seðlabankans, Þórarinn G. Pétursson, og aðstoðabankastjórinn, Arnór Sighvatsson.

Greining Íslandsbanka segir það hafa komið nokkuð á óvart að Þórarinn hafi kosið vaxtalækkun í mars í fyrra upp á 0,25 prósentur, þó hann greiddi tillögunni um óbreytta vexti atkvæði sitt. Á móti hafi hann verið hauksmeginn ásamt Sibert í hittifyrra. Greiningin bendir á að hann virðist hafa færst í haukshaminn á ný síðar á árinu þar sem í september hafi hann fremur kosið að vextir bankans yrðu hækkaðir um 0,25 prósentur en niðurstaðan var óbreyttir vextir.

Þá hafi Arnór Sighvatsson alltaf greitt atkvæði með tillögu Seðlabankastjóra og var alltaf sammála honum hvað vexti varðar. Sú hefur verið raunin frá því peningastefnunefnd var sett á laggirnar árið 2009.