Óstöðugt aðgengi að vörum hjá birgjum, háir tollar, aðflutningsgjöld og hár virðisaukaskattur á hönnunarvöru sem gera fyrirtækjum og smásölum erfitt fyrir skiluðu því að loka verður hönnunarhúsinu Atmo. Þetta segir Ásta Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Atmo, í samtali við Fréttablaðið í dag. Húsið opnaði um miðjan nóvember í fyrra.

Ásta segir mikla eftirsjá vera að versluninni en ákvörðunin um að loka sé óhjákvæmileg. Hún skorar á nýja ríkisstjórn að skoða að gera eitthvað fyrir íslenska hönnun svo að þessi grein deyi ekki út.

Dagana 17.-26.maí verður lokasala í húsnæðinu á vegum hönnuðanna sjálfra, að því er fram kemur í blaðinu.