„Við höfum verið að prófa appið,“ segir Helga María Helgadóttir, framkvæmdastjóri Netgíró, sem hefur búið til app sem gerir viðskiptavinum fyrirtækisins kleift að borga fyrir vörur og þjónustu með símanum. Yfir 600 söluaðilar eru í samtarfi við Netgíró um þjónustuna.

Hægt er að nálgast appið í Play Store fyrir tæki sem keyra á Android-stýrikerfi og iTunes-verslun Apple. Við fyrstu notkun er kennitala notanda skráð, lykilorð hans fyrir Netgíró og síðan fjögurra stafa PIN fyrir appið. Eftir það sést heimild viðkomandi í appinu og með því að smella einfaldlega á hnappinn „Borga“ birtist strikamerki og staðfesting á greiðslu á skjánum.  Að auki er hægt að skoða alla Netgíró reikninga í valmynd.

Fram kemur í tilkynningu frá Netgíró að viðskiptavinir fái vöruna afhenta strax en greiði ekki fyrir hana fyrr en eftir 14 daga, vaxtalaust. Þannig geti neytandinn skoðað, prófað, mátað og kynnst vörunni áður en hann greiðir fyrir hana. Viðskiptavinir geta einnig valið að dreifa greiðslum með raðgreiðslum í  allt að 12 mánuði á hagstæðum kjörum.

Í tilkynningunni segir Helga María:

„Við fórum fljótlega eftir stofnun að vinna að símalausn til að auðvelda neytendum að nota Netgíró. Við höfum verið að prófa appið sem er afar einfalt í notkun en borgað er með því að starfsmaður verslunar eða fyrirtækis skannar strikamerki sem er í símanum þínum,“ segir hún.