Stjórn Regins ákvað á fundi í dag að hækka hlutafé í fasteignafélaginu um 126,6 milljónir króna að nafnvirði á genginu 19 krónur á hlut. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Reginn hefur sent í Kauphöllina.

Í tilkynningunni segir að hlutafjáraukningunni verður ráðstafað sem greiðslu fyrir hlutafé í fasteignafélögunum Ósvör ehf. og CFV 1 ehf. í samræmi við kaupsamning dags. 30. desember 2015.

Hlutafé í Regin fyrir hlutafjáraukninguna er 1.428.700.000 krónur að nafnvirði og verður að henni lokinni 1.555.300.000 krónur að nafnvirði. Reginn á ekki eigin hluti. Hinir nýju hlutir veita réttindi í Regin frá skráningardegi hlutafjárhækkunarinnar hjá Fyrirtækjaskrá. Sölubann gildir um hina nýju hluti þannig að 30% hlutanna verða seljanlegir við afhendingu, 60% eftir 6 mánuði og 100% eftir 9 mánuði frá afhendingu.

Hinir nýju hlutir verða afhentir eigendum fasteignafélaganna Ósvör ehf. og CFV 1 ehf. sem eru nokkrir. Af þessum aðilum er enginn með stærri hlut en 2% í Regin að undanskyldum Sigurði Sigurgeirssyni fagfjárfesti. Í gegnum eignarhaldsfélag sitt, Mjölnisholt ehf. verður Sigurður sjötti stærsti hluthafinn í Regin.